Við undirrituð skorum á stjórnvöld að hefja nú þegar og án frekari tafa rannsóknir og undirbúning fyrir jarðgangagerð á milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar.
Þjóðvegurinn um Súðavíkurhlíð í Álftafirði og Kirkjubólshlíð í Skutulsfirði er talinn einn hættulegasti vegur landsins og löngu orðið tímabært og bráðnauðsynlegt að bæta þar úr og teljum við ekkert koma þar til greina nema jarðgöng.
Súðavíkurhlíð og Kirkjubólshlíð eru farartálmar allra íbúa á norðanverðum Vestfjörðum, (Þingeyrar, Flateyrar, Suðureyrar, Ísafjarðar, Bolungarvíkur) sem komast þurfa landleiðina frá norðanverðum Vestfjörðum og einnig fyrir þá sem eiga leið inn á norðanverða Vestfirði.
Nú síðast, rétt fyrir síðustu áramót í óveðrinu sem gekk yfir Vestfirði féllu á fáeinum dögum snjóflóð úr 20 þekktum snjóflóðafarvegum í Súðavíkurhlíð.
Tepptust þar með allar bjargir og aðföng til og frá Ísafirði, höfuðstað Vestfjarða, frá 28. desember til 2. janúar sl. Þær aðstæður sem þar með mynduðust eru með öllu óásættanlegar fyrir atvinnulíf og alla íbúa á norðanverðum Vestfjörðum.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem unnin var af Veðurstofu Íslands ,,Mat á hættu vegna snjóflóða og grjóthruns á vegum milli Súðavíkur og Bolungarvíkur“ (Harpa Grímsdóttir, janúar 2006) kemur fram að:
,,Niðurstaða þessarar skýrslu er því sú að fyrir þá sem ferðast daglega um Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð er snjóflóða- og grjóthrunshættan nálægt því að tvöfalda árlegar dánarlíkur í umferðinni (miðað við meðaldánarlíkur Íslendinga í umferðinni).“
Áskorun um jarðgöng milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar miðast við að framkvæmd við Álftafjarðargöng hefist í beinu framhaldi af Dýrafjarðargöngum.
Bryndís Friðgeirsdóttir, Ísafirði
Kristín Hálfdánsdóttir, Ísafirði
Oddný Elinborg Bergsdóttir, Súðavík
Pétur G. Markan, Súðavík
Rósa Ólafsdóttir, Súðavík
Sigríður María Gunnarsdóttir, Súðavík
Soffía Vagnsdóttir Bolungarvík
Þröstur Óskarsson, Ísafirði